Innlent

Gamlar glæður valda vandræðum á Facebook

Á Facebook eru það einna helst gamlar ástir sem eru eitur í beinum makans, segir Hafliði Kristinsson, fjölskyldu-og hjónabandsráðgjafi.
Á Facebook eru það einna helst gamlar ástir sem eru eitur í beinum makans, segir Hafliði Kristinsson, fjölskyldu-og hjónabandsráðgjafi.

„Jú, ég hef heyrt það á mínu fólki að Facebook og þessi netsamskipti hafi valdið því að slitnað hafi upp úr samböndum," segir Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands. Samkvæmt könnun meðal bandarískra skilnaðarlögfræðinga er hægt að rekja fimmtung allra skilnaða beint til Facebook- og Twitter-notkunar. Þetta eru sambærilegar niðurstöður og fengust í breskri könnun nýverið.

Þeir skilnaðarlögfræðingar sem Fréttablaðið ræddi við höfðu vissulega heyrt af Facebook-vandræðum í hjónaböndum og samböndum en voru ekki reiðubúnir til að kvitta upp á neina tölfræði í þeim efnum. Einn reyndur skilnaðarlögfræðingur sem vildi ekki koma fram undir nafni sagðist hafa komið að skilnaði þar sem Facebook var beinilínis nefnd sem meginorsök.

Umræddur lögfræðingur sagði að sér virtist sem fólk átti sig ekki nægilega á Fésbókinni, að efnið sé þar fyrir allra augum. Jafnframt sagði hann að þess séu dæmi að Fésbókin sé notuð þegar fólk standi í skilnaði. Þá komi annar aðilinn til að mynda með útprent af síðunni þar sem sýnt er fram á að hinn aðilinn hafi ekki verið allur þar sem hann er séður.

Hafliði Kristinsson, fjölskyldu-og hjónabandsráðgjafi, hefur hins vegar oft heyrt minnst á samskiptavefinn Facebook í samtölum sínum við skjólstæðinga. „Ég veit ekki hvort það er hægt að segja Facebook ábyrga fyrir skilnaði og sambandsslitum en hún er vissulega áhrifavaldur," segir Hafliði og nefnir þar sérstaklega sambönd sem ekki eru komin langt á veg.

„Yfirleitt eru það gamlar kærustur eða gamlir kærastar sem valda óöryggi hjá hinum aðilanum og fólk veit ekki alveg hver tengslin eru við fortíðina," segir Hafliði og bætir því jafnframt við að rótgróin sambönd séu ekkert síður í hættu.

Hafliði bendir á að Facebook sé tiltölulega nýtt samskiptaform og að hún hafi eiginlega opnað sambandið upp á gátt. Allt sé opið fyrir allra augum og vinabeiðni eða athugasemd geti valdið misskilningi. „Fólk á kannski að fara yfir vinahópinn og semja umferðarreglurnar saman," segir Hafliði.

Vigfús Árnason, prestur í Grafar­vogskirkju, segir að netið í heild, hafi haft mikil áhrif og hann viti um skilnaði sem megi rekja beint til netnotkunar.

„Makinn hefur kannski opnað tölvuna, rekist þar á mjög náin samtöl hins aðilans við einhvern utanaðkomandi og þá hefur allt sprungið," segir Vigfús en áréttar að netið sé yfirleitt bara kornið sem fylli mælinn.

freyrgigja@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×