Erlent

Sýknaður af 285 ákæruatriðum - eitt leiddi til sakfellingar

MYND/AP

Fyrsti Guantanamo fanginn sem dreginn hefur verið fyrir rétt á bandarískri grundu var sýknaður í meginatriðum í gær. Tanzaníumaðurinn Ahmend Ghailani, 36 ára, var sýknaður af 285 ákæruatriðum en fundinn sekur í einu, um að leggja á ráðin um sprengjuárásir á bandarískar eignir. Ghailani var ákærður fyrir aðild að árásunum á sendiráð bandaríkjanna í Kenýa og Tanzaníu árið 1998 þar sem 224 létust.

Hann var einnig ákærður fyrir morð og morðsamsæri svo nokkuð sé nefnt en kviðdómur sakfelldi aðeins í einu atriði eins og áður sagði. Þrátt fyrir það má Ghailani búast við að sitja í að minnsta kosti 20 ár í fangelsi.

Stjórnmálaskýrandi BBC segir að dómurinn sé mikið áfall fyrir ríkisstjórn Baracks Obama, sem barist hafi fyrir því að rétta yfir grunuðum hryðjuverkamönnum fyrir almennum dómstólum í Bandaríkjunum. Margir hafa verið því andvígir og líklegt er að sýknudómurinn í gær verði vatn á myllu þeirra. Fjórir meintir samsærismenn Ghailanis hafa þegar verið dæmdir fyrir herdómstól árið 2001 og fengu þeir allir lífsstíðarfangelsisdóma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×