Innlent

Ekki brugðist við áskorun talsmanns Wikileaks

Össur Skarphéðinsson hefur ekki brugðist við áskorun Kristins Hrafnssonar talsmanns Wikileaks.
Össur Skarphéðinsson hefur ekki brugðist við áskorun Kristins Hrafnssonar talsmanns Wikileaks.
Utanríkisráðherra hefur ekki brugðist við áskorun talsmanns Wikileaks um að fordæma þær árásir sem vefsíðan hefur orðið fyrir undanfarið.

Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, skoraði á Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um helgina að fordæma árásir kortafyrirtækja á Wikileaks síðuna en Vísa og Mastercard í Danmörku skrúfuðu fyrir framlög kreditkortanotenda sem vildu styrkja Wikileaks.

Paypal og Amazon höfðu gert slíkt hið sama. Kristinn hefur kallað þetta grófa aðför að tjáningarfrelsinu og hvetur utanríkisráðherra til að gagnrýna framferði bandarísku ríkisstjórnarinnar - en hann kveðst vita til þess að greiðslufyrirtækin hafi lokað á Wikileaks vegna þrýstings frá bandarískum yfirvöldum.

Fréttastofa hefur í dag ítrekað reynt að ná í utanríkisráðherra til að spyrja hvort hann hyggist bregðast við áskorun talsmanns Wikileaks. Ekki hefur náðst í ráðherrann í dag. Í sumar samþykkti Össur - og 49 aðrir þingmenn - þingsályktunartillögu Birgittu Jónsdóttur Hreyfingunni um að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, upplýsingamiðlun og tryggja vernd heimildarmanna og afhjúpenda. Markmiðið var að gera Ísland að alþjóðlegum griðastað frjálsrar fjölmiðlunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×