Fótbolti

Mourinho þagði og blaðamenn gengu út

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mourinho á blaðamannafundinum í dag.
Mourinho á blaðamannafundinum í dag. Nordic Photos / AFP
Blaðamannafundur Real Madrid fyrir leikinn gegn Barcelona á morgun var ansi skrautlegur. Jose Mourinho, stjóri Real, sat fundinn en sagði ekki orð.

„Mourinho vill ekki að orð hans verði tekin úr samhengi," sagði aðstoðarþjálfarinn Aitor Karanka sem sá um að tala á blaðamannafundinum í dag. Mourinho sat við hlið hans en sagði ekki orð.

Blaðamenn voru alls ekki sáttir við þetta og 30 manna hópur úr röðum þeirra gengu út af fundinum.

Mourinho er þekktur fyrir að eiga nokkuð stirt samband við fjölmiðlamenn í þeim löndum sem hann starfar. Spánn er engin undantekning en Mourinho hefur til að mynda reitt blaðamenn til reiði með því að takmarka aðgang þeirra að leikmönnum og æfingum liðsins.

Barcelona er nú með átta stiga forystu á toppi deildarinnar og því verður Real að vinna til að eiga einhverja möguleika á að vinna titilinn í vor. Börsungar eru þó í vænlegri stöðu og líklegri til að hreppa hnossið.

Pep Guardiola, stjóri Barcelona, segir að þrátt fyrir þessa góðu forystu sé ekkert unnið enn.

„Það segir mér sá hugur að við verðum að vinna þennan leik til að vinna deildina. Það er ekkert ákveðið enn. Við gætum unnið einn titil, tvo eða tapað öllum þremur."

Barcelona og Real munu mætast fjórum sinnum á næstu átján dögum. Í næstu viku mætast liðin í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar og svo taka við tveir leikir í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×