Innlent

Mikil verðhjöðnun milli mánaða

Hafsteinn Hauksson skrifar
Ásdís Kristjánsdóttir og Þórhallur Ásbjörnsson hagfræðingar ásamt Ásgeiri Jónssyni, forstöðumanni greiningardeildar Arion banka.
Ásdís Kristjánsdóttir og Þórhallur Ásbjörnsson hagfræðingar ásamt Ásgeiri Jónssyni, forstöðumanni greiningardeildar Arion banka. Fréttablaðið/GVA

Greiningardeildir spá því einróma að mikil verðhjöðnun mælist milli mánaða. Ástæðan er einkum róttækar breytingar á því hvernig vísitalan er mæld, án þess að verðlag lækki raunverulega til samræmis.

Vísitala neysluverðs mælir þær verðbreytingar í hagkerfinu sem mest áhrif hafa á útgjöld heimilanna í landinu og er auk þess notuð til verðtryggingar. Greiningardeildir bankanna spá því einróma að vísitalan lækki á morgun, en Hagstofan birtir nýjustu mælingu hennar þá. Djörfustu spánna á Arion banki um 0,8 prósenta lækkun, en svo mikil verðhjöðnun milli mánaða hefur ekki sést síðustu áratugi hér á landi.

Ásdís Kristjánsdóttir hjá greiningu Arion banka segir hluta ástæðunnar fyrir þessari spá vera janúarútsölurnar, en þá lækka margar verslanir verð hjá sér tímabundið. Önnur ástæða sé svo varanleg breyting á verðbólgumælingunni sjálfri.

Hingað til hefur nefskattur vegna Ríkisútvarpsins verið mældur eins og greiðsla fyrir hverja aðra áskrift að fjölmiðli. Hagstofan hefur hins vegar ákveðið að það verði nú mælt eins og um skatt sé að ræða, en ekki greiðsla fyrir þjónustu. Þannig dettur gjaldið í raun út úr vísitölumælingunni, svo vísitalan lækkar sjálfkrafa um tæpt hálft prósent, þrátt fyrir að gjaldið sé raunverulega að hækka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×