Innlent

Öll tölvuspor eru rekjanleg

Þróunarstjóri tölvuþjónustunnar Snerpu á Ísafirði segir nettengdar tölvur ætíð skilja eftir sig spor. Fréttablaðið/Heiða
Þróunarstjóri tölvuþjónustunnar Snerpu á Ísafirði segir nettengdar tölvur ætíð skilja eftir sig spor. Fréttablaðið/Heiða

Hvað var tengd fartölva að gera í varaþingmannaherbergi Alþingis í fimm vikur?

„Þegar tölvu er plantað til að snuðra þá sæjust um það merki bæði í henni sjálfri og hjá þeim sem snuðrað var hjá. Ég held að við séum að tala um storm í vatnsglasi. En málið er alvarlegt, því það sýnir fram á að þetta er hægt," segir Björn Davíðsson, þróunarstjóri tölvuþjónustufyrirtækisins Snerpu á Ísafirði, um litlu fartölvuna sem fannst í varaþingmannaherbergi Alþingis á 5. hæð í Austur­stræti fyrir tæpu ári.

Eins og komið hefur fram var fartölvan tengd við tölvukerfi Alþingis frá 28. desember 2009 til 2. febrúar 2010 þegar starfs­maður Alþingis fann hana á skrifstofu nefndar­sviðs Alþingis sem sjaldan er notuð. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Hreyfingarinnar eru með aðstöðu á sömu hæð auk þess sem Þingvallanefnd er með aðstöðu þar.

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði í samtali við Fréttablaðið tölvuvarnir Alþingis hafa aðeins gert ráð fyrir utanaðkomandi árás. Nú er búið að herða reglur og bæta varnir.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir ógerning að vita hver geti hafa komið tölvunni fyrir í herberginu því mikil umferð sé um húsið. Þeir sem vilji inn í húsið þurfa að bera á sér rafrænt auðkenni eða að hringja í þingvörð til að komast inn. Skrá er ekki haldin um þá sem fara um húsið.

Tölvudeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur haft tölvuna til rannsóknar í ár. Erfitt hefur verið að finna eiganda hennar því auðkenni höfðu verið afmáð auk þess sem svo virðist sem hún hafi verið forrituð með þeim hætti að allt efni á harða diski eyddist sjálfkrafa þegar slökkt var á henni. Þá voru engin fingraför á tölvunni ef frá eru skilin þau sem starfsmenn Alþingis skildu eftir sig.

Þeir sem Fréttablaðið hefur rætt við og þekkingu hafa á tölvu­njósnum segja tvenns konar aðferðir helst notaðar. Auðveldasta leiðin sé að tengja tölvu við kerfið með beinum hætti líkt og gert var á skrifstofu Alþingis. Allt fari þetta þó eftir því hvaða upplýsingum sé verið að fiska eftir. Hin leiðin sé að brjótast inn í tölvukerfið með vírus. Sá hugbúnaður þurfi að vera háþróaður.

Flestir eru sammála um að sama hvaða aðferð sé notuð skilji tölvuinnbrot í flestum tilvikum eftir sig ummerki. Sama hvað gert sé til að hindra það megi ætíð grafa eitthvað upp. Það sama á við ef hugbúnaður tölvunnar er þannig gerður að hann miðli upplýsingum um þráðlaust net í fartölvu sem staðsett er í öðrum hluta hússins.

„Það er mjög erfitt að fela slóðina," segir Björn hjá Snerpu en ítrekar að hann viti lítið um tölvuna á skrifstofum Alþingis fyrir utan það sem hann lesi í fjöl­miðlum. Það sama gildir um þau Ástu R. og Helga Bernódusson, sem hvorugt hefur séð tölvuna. jonab@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×