Innlent

Gæsluvarðhaldi yfir raðþjófi staðfest

18 ára piltur er í gæsluvarðhaldi vegna innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu.
18 ára piltur er í gæsluvarðhaldi vegna innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu.

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir 18 ára pilti sem stöðvaður var í bifreið fullri af þýfi þann 15. janúar síðastliðinn. Í rökstuðningi lögreglunnar kemur fram að rannsókn málsins hafi undið upp á sig og pilturinn sé grunaður um aðild að fjölda innbrota og þjófnaða á höfuðborgarsvæðinu síðustu mánuði.

Pilturinn var handtekinn á Vesturlandsveg eftir að lögreglu hafði borist ábending um innbrot. Í bílnum fannst meðal annars Playstation 3 leikjatölva, tvær fartölvur, stafræn myndavél og skartgripir auk debetskorts.

Lögreglan handtók piltinn en komst fljótt að því að málið snerist um meira en eitt innbrot. Ásamt piltinum eru tveir aðrir kærðir í málinu, samverkamenn piltsins, en við yfirheyrslur sagði innbrotsþjófurinn hafa brotist inn í fjölda húsa á höfuðborgarsvæðinu ásamt félögum sínum.

Hann sagði þá hafa haft umtalsverðar fjárhæðir úr krafsinu.

Lögreglan telur ríka rannsóknarhagsmuni fyrir því að pilturinn sæti einangrun. Annars geti hann spillt rannsókninni. Vegna ungs aldurs hafi barnaverndaryfirvöldum verið gert viðvart en lögreglan telur gæsluvarðhald einu raunhæfa valkostinn í málinu.

Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms sem kveður á að pilturinn skuli sæta gæsluvarðhaldi til 28. janúar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×