Fótbolti

Fyrsti sigur Wolfsburg undir stjórn Littbarski og Eyjólfs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego fagnar öðru marka sinna í kvöld.
Diego fagnar öðru marka sinna í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Wolfsburg endaði fjögurra leikja taphrinu í þýsku úrvalsdeildinni þegar liðið vann 2-1 sigur á botnliði Borussia Mönchengladbach í kvöld. Þetta var fyrsti sigur liðsins undir stjórn þeirra Pierre Littbarski og Eyjólfs Sverrissonar og liðið er eftir leikinn í þrettánda sæti deildarinnar.

Það var Brasilíumaðurinn Diego sem skoraði bæði mörk Wolfsburg í leiknum. Það fyrra á 36. mínútu og það seinna í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Seinna markið skoraði hann beint úr aukaspyrnu. Diego hafði reyndar klikkað á vítaspyrnu á 29. mínútu en bætti fyrir það með tveimur mörkum fyrir hálfleik.

Borussia Mönchengladbach minnkaði muninn á 74. mínútu þegar Filip Daems skoraði úr vítaspyrnu.

Þetta var þriðji leikur Wolfsburg síðan að Pierre Littbarski gerðist þjálfari og Eyjólfur tók að sér stöðu aðstoðarþjálfara hjá honum. Liðið tapaði fyrsta leiknum 0-1 á heimavelli á móti Hamburg og tapaði síðan 1-2 á móti Freiburg á útivelli um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×