Enski boltinn

Cole sér ekki eftir því að hafa farið til Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Cole í leiknum í síðustu viku.
Joe Cole í leiknum í síðustu viku. Nordic Photos / AFP
Joe Cole segir að síðustu sex mánuðir lífs síns hafa verið erfiðir en samt sjái hann ekki eftir því að hafa gengið til liðs við Liverpool.

Cole kom til félagsins án greiðslu frá Chelsea í sumar en hefur ekki náð sér á strik með nýja félaginu.

Hann fékk rautt í sínum fyrsta leik með Liverpool og meiðsli hafa einnig sett strik í reikninginn. Cole hefur því aðeins byrjað í átta deildarleikjum með Liverpool á tímabilinu til þessa.

„Þetta hefur ekki verið eins og ég hefði viljað hafa það en svona er lífið," sagði Cole við enska fjölmiðla.

„Mér hefur bæði gengið vel og illa á mínum ferli en alltaf komist aftur á réttan kjöl. Ég er harðákveðinn í því að ná árangri hér. Ég hef lagt mikið á mig og er ánægður með að liðið sé á réttri leið. Ég myndi gjarnan vilja eiga þátt í velgengni liðsins," bætti hann við.

„Mér stóð til boða í sumar að vera áfram í Lundúnum en ég vildi prófa sjálfan mig hér. Mér verð enn spenntur við tilhugsunina að spila á Anfield og það eina sem ég vil gera er að fara inn á völlinn og spila."

Joe Cole kom inn á sem varamaður þegar að Fabio Aurelio meiddist í leiknum gegn Sparta Prag í Evrópudeildinni í síðustu viku. Aurelio æfði ekki í gær og því gæti Cole fengið tækifæri í byrjunarliðinu þegar að liðið mætir Tékkunum á Anfield í kvöld.

Það var hans fyrsti leikur eftir sex vikna fjarveru vegna hnémeiðsla.

„Joe spilaði aðeins lengur en við hefðum viljað í síðustu viku og við þurfum nú að meta hversu mikið hann getur spilað. Það liggur ekkert á og erum við þolinmóðir gagnvart honum," sagði Kenny Dalglish, stjóri Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×