Erlent

Sonur Gaddafi segir Líbýu á barmi borgarastríðs

al Islam sonur Muammar Gaddafi leiðtoga Libýu segir að landið sé á barmi borgarastríðs. Þetta kom fram í ávarpi hans seint í gærkvöldi í líbýska sjónvarpinu.

al Islam segir að Gaddafi ætli sér að berja niður uppreisnina gegn sér harðri hendi. Raunar orðaði hann það svo að Gaddafi myndi berjast til síðasta blóðdropa.

al Islam segir  að þjóðþingið komi saman í dag til að ræða umbætur. Mótmælin eru nú komin til höfuðborgarinnar Tripoli en þar var barist á götum úti í gærkvöldi.

Borgin Benghazi mun vera á valdi mótmælenda í augnablikinu en þar fórust yfir 200 manns í bardögum um helgina. Herinn notaði meðal annars leyniskyttur í Benghazi til að myrða mótmælendur.

Háttsettur líbýskur diplómat segir að Muammar Gaddafi hafi hugsanlega yfirgefið landið. Þetta kom fram í fréttum al-Jazeera sjónvarpsfréttastöðvarinnar.

Diplómatinn sem hér um ræðir er ritari sendiráðs Líbýu í Kína. Hann heldur því einnig fram að til skotbardaga hafi komið milli tveggja sona Gaddafi. Þessar fréttir hafa ekki fengist staðfestar hjá öðru starfsfólki sendiráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×