Körfubolti

Ólafur Ægisson: Ekki hægt að þagga niður í Bradford

Henry Birgir Gunnarsson í DHL-höllinni skrifar
Ólafur Már Ægisson átti frábæra innkomu í lið KR í fjórða leikhluta gegn Grindavík í kvöld. Skoraði hverja glæsikörfuna á fætur annarri en það dugði ekki til.

"Það var vægast sagt mjög erfitt að tapa þessum leik. Varnarleikurinn hjá okkur var ekki nógu góður í þessum leik. Við vinnum ekki leiki með því að leyfa andstæðingnum að skora yfir 100 stig," sagði Ólafur Már svekktur.

Ólafur var líkt og örbylgjuofn í fjórða leikhlutanum. Snögghitnaði og skoraði 14 stig.

"Ég var aðeins að nýta mér að Nick var kominn aftur til landsins. Honum finnst ekki leiðinlegt að kjafta við mann á meðan leikurinn er í gangi. Ég var að gera mitt besta til þess að þagga niður í honum. Ég held það sé ekki hægt. Hann heldur alltaf áfram, alveg sama hvað hann fær mörg skot í andlitið."

Þó svo Ólafur hafi verið sjóðheitur í lokaleikhlutanum var honum ekki treyst til þess að klára leikinn. Var hann ekki svekktur yfir því?

"Maður er alltaf svekktur að vera tekinn af velli. Þegar maður eins og Brynjar kemur inn þá er ekki hægt að kvarta. Hann er maðurinn sem lokar leikjum fyrir okkur. Þó svo það hafi ekki gengið núna gengur það bara næst."


Tengdar fréttir

Ólafur Ólafs: Bradford er alveg ótrúlegur

Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson átti magnaðan leik í kvöld þegar Grindavík varð fyrst allra liða til þess að leggja KR í Vesturbænum í vetur.

Myndasyrpa úr leik KR og Grindavíkur

Grindavík vann í gær nauman eins stigs sigur á KR í Iceland Express-deild karla. Þar með náðu Grindvíkingar að hefna fyrir tapið í bikarúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×