Erlent

Herþotur Gaddafis gerðu loftárásir á tvo bæi

MYND/AP
Herþotur Líbíuhers gerðu í morgun loftárásir á bæinn Brega sem er miðstöð olíuframleiðslu landsins. Einnig herma fregnir að þoturnar hafi skotið flugskeytum á aðra stærri borg í nágrenninu. Barist hefur verið um Brega síðustu daga og náðu hermenn hliðhollir einræðisherranum Gaddafi valdi á bænum í gær en uppreisnarmenn boluðu þeim út síðar um daginn. Heimildir BBC í Brega herma að í kjölfar þess hafi Gaddafi fyrirskipað loftárásir á borgina og að meðal annars hafi verið gerðar árásir á flugvöll sem þjónustar olíuvinnslusvæðin. Talsmaður uppreisnarmanna segir að þoturnar hafi einnig skotið flugskeytum á bæinn Ajdabiya sem hefur verið á valdi uppreisnarmanna í nokkurn tíma.

Hollenski herinn staðfesti einnig í morgun að þrír hollenskir hermenn hafi verið handsamaðir af mönnum Gaddafis. Þeir eru sagðir hafa verið að aðstoða evrópubúa við að komast frá Líbíu þegar þeir voru handteknir í borginni Sirte.

Stórveldi heimsins hafa síðustu daga rætt um hvort setja eigi flugbann yfir Líbíu og er Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna sögð íhuga það af alvöru. Rússar hafa hinsvegar hingað til verið tregir til að samþykkja slíkt bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×