Erlent

Nákvæmara próf gegn blöðruhálskrabbameini

Vísindamenn í háskólanum í Surrey í Bretlandi hafa þróað próf sem finna á krabbamein í blöðruhálskirtli með þvagsýni. Prófið er sagt vera mun nákvæmara en önnur próf og er áætlað að aðferðin verði að fullu þróuð haustið 2012.

Á hverju ári greinast yfir 36 þúsund breskra karlmanna með blöðruhálskrabbamein. Karlmaður er greindur með sérstakri PSA-blóðprufu en hún hefur ekki verið talin nægilega áreiðanleg. Miklir möguleikar eru því í nýja prófinu, en það er sagt vera tvisvar sinnum áreiðanlegra en gamla PSA-prófið.

Prófið, sem á að vera jafn einfalt og þungunarpróf, á að hjálpa karlmönnum að leita sér læknishjálpar án kvalafullra blóðprufa og vandræðalegra skoðana. Menn myndu pissa á prófið og fá niðurstöðurnar á innan við fimm mínútum. 

Rannsókn var gerð á 288 sjúklingum þar sem efnið EN2 var kannað í þvagi. Í kjölfarið fundust nokkur tilfelli blöðruhálskrabbameins í mönnum sem áttu ekki að kenna sér meins og segir einn rannsakenda, prófessor Hardev Pandha, að ef EN2 finnst í þvagi, þá geti menn verið nokkuð vissir um að um sé að ræða blöðruhálskrabbamein.

John Neate, framkvæmdastjóri Prostate Cancer Charity fagnar niðurstöðunni en segir að fólk þurfi að gera sér grein fyrir að nýja prófið sé ekki fullkomið, það þurfi að gera stærri rannsóknir til að staðfesta að prófið virki. Áætlaðar eru stærri rannsóknir í Bretlandi og Bandaríkjunum og þar sjá rannsakendur fyrir sér að EN2-þvagprufan verði notuð samfara PSA-blóðprufunni. Einnig eru rannsóknarmenn að kanna hvort magn EN2 í þvagi geti sagt til um alvarleika meinsins og þannig séð hvort tafarlausrar meðferðar sé þörf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×