Erlent

Hjólreiðar valda alls ekki hjartaáföllum - eru hollar fyrir flesta

MYND/AP
Hún vakti athygli á dögunum fréttin af erlendri skýrslu þar sem sagt var að hjólreiðar væru heilsuspillandi og orsökuðu hjartaáfall. Greinin var upphaflega skrifuð í Daily Mail en fór fljótlega víða, þar á meðal inn á Vísi. Forsvarsmenn rannsóknarinnar eru hinsvegar ekki allskostar sáttir við túlkun breska blaðsins á skýrslunni og í Guardian hefur henni nú verið svarað, enda langt í frá hægt að segja að hjólreiðar orsaki hjartaáföll.

Tim Nawrot, einn af höfundum skýrslunnar segir alrangt að leggja svo út af rannsókninni. „Ég er ekki sammála því að hjólreiðar séu óheilsusamlegar. Hreyfing er mjög góð leið til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma af ýmsu tagi."

Nawrot útskýrir að rannsóknin hafi verið gerð til þess að finna helstu þætti sem orsaki að lokum hjartaáföll hjá fólki sem er þegar langt leitt af sjúkdómum sem offita, drykkja og reykingar valda, svo dæmi séu tekin.

Ein helsta kveikjan að hjartaáföllum er samkvæmt rannsókninni mikil hreyfing og að vera í mikilli umferð með tilheyrandi mengun og hjólreiðar geta sameinað þetta tvennt. Þannig fengu menn út að hjólreiðar orsaki hjartaáföll.

Sérfræðingur hjá bresku hjartasamtökunum bætir um betur í Guardian greininni og segir: „Loftmengun og útblástur bifreiða geta gert illt verra hjá þeim sem þjást af hjartasjúkdómum. En ef hjartað er heilbrigt þá er mun meira að græða á því að fara út að hjóla en að sitja bara heima með gluggana lokaða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×