Innlent

Ásgerður neitar því að hafa lagt Ólaf í einelti

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, neitar ásökunum um einelti í garð fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá bænum. Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að Ásgerður hefði lagt framkvæmdastjórann í einelti.

Ólafur Melsted er fyrrverandi framkvæmdastjóri tækni- og umhverfissviðs Seltjarnarnesbæjar. Hann hefur verið frá vinnu í rúmt ár vegna eineltis, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu bæjarstjórans. Dómkvaddir matsmenn hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að sú sé raunin og krefst Ólafur þess að bæjarstjóranum verði vikið úr starfi. Í bréfi til bæjarstjórnar er gefinn 20 daga frestur til að leysa málið með sátt ella verði málið rekið fyrir dómstólum.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sagðist í samtali við fréttastofu nú fyrir hádegi, neita því að hafa lagt Ólaf í einelti; hún hefði ekki enn séð skýrslu hinna dómkvöddu matsmanna og þyrfti að kynna sér hvaða forsendur lægju að baki mati þeirra.

Hið meinta einelti snerist meðal um röð atvika þar sem Ásgerður átti að hafa gert lítið úr Ólafi fyrir framan samstarfsmenn, hún hafi dreift læknisvottorði hans til annarra starfsmanna og veitt honum áminningu án tilefnis.

Í eineltisáætlun Seltjarnarnesbæjar segir að Seltjarnarnesbær beri ábyrgð á því að koma í veg fyrir að einelti eigi sér stað á vinnustað. Kveðið er á um að allar kvartanir vegna eineltis skuli rannsakaðar og málsmeðferð flýtt. Í áætluninni segir að þegar einelti er alvarlegt og endurtekið varði það áminningu eða brottrekstri úr starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×