Fótbolti

Rehhagel orðaður við Schalke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Otto Rehhagel.
Otto Rehhagel. Nordic Photos / Getty Images
Þrátt fyrir að Schalke sé komið í fjóðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu eru forráðamenn liðsins sagðir þreyttir á slæmu gengi liðsins í deildinni heima og íhuga að segja stjóranum Felix Magath upp störfum.

Schalke er í tíunda sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, aðeins fimm stigum frá fallsæti, og hefur ekki unnið þrjá síðustu leiki sína. Liðið er þó komið í úrslit þýsku bikarkeppninnar eftir að hafa unnið Bayern München í undanúrslitum.

Þýska dagblaðið Bild greinir frá því í dag að til greina komi að ráða Otto Rehhagel, fyrrum landsliðsþjálfara Grikklands, til að taka við liðinu strax og stýra því til loka leiktíðarinnar.

Þýskir fjölmiðlar fjölluðu um það fyrr í vikunni að Magath yrði sagt upp störfum en ekki fyrr en í lok tímabilsins. Fyrir stuttu var tilkynnt að Louis van Gaal, stjóri Bayern, myndi hætta í lok leiktíðarinnar.

Rehhageel þjálfaði lið Grikkja frá 2001 og þar til í fyrra. Hann gerði liðið að Evrópumeisturum árið 2004. Áður hefur hann þjálfað Werder Bremen, Dortmund, Bayern München og Kaiserslautern í heimalandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×