Erlent

Obama ver ákvörðun sína um loftárásir á Líbíu

Ítalir leggja til að Gaddafai verði boðið að fara í útlegð
Ítalir leggja til að Gaddafai verði boðið að fara í útlegð
Barack Obama forseti Bandaríkjanna keppist nú við að verja þá ákvörðun sína að heimila hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Líbíu en loftárásirnar eru fyrsta dæmið um slíkt í stjórnartíð forsetans.

Obama sagði í ræðu í nótt að aðgerðirnar í Líbíu hefðu bjargað óteljandi mannslífum en bætti við að afskipti Bandaríkjamanna af málinu yrðu takmörkuð.

Bandaríkjamenn hafa hingað til farið með stjórnina á aðgerðunum en þær verða hér eftir á hendi Atlantshafsbandalagsins.

Hægst hefur á sókn uppreisnarmanna í vesturátt og virðist nú víglínan vera dregin fyrir utan bæinn Sirte, sem er fæðingarstaður Gaddafís.

NATO hefur verið gagnrýnt fyrir túlkun sína á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna varðandi Líbíu sem mælir fyrir um leyfi til að koma í veg fyrir mannfall á meðal óbreyttra borgara.

Rússar vilja meina að með aðgerðum síðustu daga hafi NATO tekið sér stöðu með öðru liðinu í borgarastríði sem nú geisi í Líbíu og slíkt sé óheimilt samkvæmt ályktun ráðsins.

Löndin sem hafa komið að aðgerðunum funda í London í dag um framtíð þeirra. Þar á meðal annars að ræða um tillögu frá Ítölum, sem gengur út á að bjóða Gaddafí að fara í útlegð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×