Erlent

Mikill skortur á ljósmæðrum í heiminum

Ein af hverjum þremur konum sem fæða barn í heiminn í dag gera það án hjálpar frá ljósmóður. Í nýrri alþjóðlegri rannsókn á vegum Save the Children, eða Barnaheilla, er áætlað að ef 350 þúsund ljósmæður væru að störfum í heiminum til viðbótar við þær sem nú eru væri hægt að bjarga einni milljón barna sem látast í fæðingu á hverju ári.

Samkvæmt rannsókninni deyja þúsund konur og tvö þúsund börn á hverjum einasta degi af völdum vandamála í fæðingu sem auðveldlega mætti komast hjá með aðstoð ljósmóður. Barnaheill vilja með skýrslunni hvetja leiðtoga heimsins til að greiða fyrir því að hjálp frá ljósmóður verði útbreiddari kostur í heiminum.

Mæður í fátækari hluta heimsins eiga skiljanlega erfiðara með að fá ljósmóður til hjálpar og í Eþíópíu fæða 94 prósent allra mæðra börn sín án sérfræðiaðstoðar. Sem dæmi um mismuninn má nefna að í Bretlandi fæðast 749 þúsund börn árlega og þar starfa 27 þúsund ljósmæður en í Rúanda, þar sem um 400 þúsund börn fæðast árlega, eru ljósmæðurnar aðeins 46.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×