Fótbolti

Danir gáfu sig og ætla að leyfa keppni á gervigrasi

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Frá æfingu þýska landsliðsins í fótbolta á gervigrasvelli.
Frá æfingu þýska landsliðsins í fótbolta á gervigrasvelli. Nordic Photos/Getty Images
Danska knattspyrnusambandið ætlar að leggja fram tillögu þess efnis í vor að að leikir í efstu deild þar í landi geti farið fram á gervigrasi. Danir hafa rætt þetta mál mjög lengi án þess að komast að niðurstöðu. Allan Hansen forseti danska knattspyrnusambandsins segir í viðtali við BT að hann búist við því að tillaga þess efnis að gervigrasvellir verði löglegir í keppni í efstu deild verði samþykkt á vordögum og komi til framkvæmda tímabilið 2012-2013.

Danir hafa á undanförnum árum ekki viljað feta í fótsport landa sem búa við svipað veðurfar og þeir. Í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Ítalíu, Hollandi, Sviss, Austurríki og líka á Íslandi er leyfilegt að keppa deildarleiki á gervigrasi og Danir eru því á meðal þeirra síðustu sem taka slíka ákvörðun.

Fyrir nokkrum misserum settu stærstu félagsliðin á Norðurlöndunum á laggirnar deildarkeppni yfir vetrartímann sem kallaðist Royal League en sú keppni rann skeið sitt á enda m.a. vegna þess að Danir vildu ekki leika á gervigrasi yfir háveturinn. Þessi breyting gæti orðið til þess að „Búðingadeildin" eins og hún var oft kölluð hér landi fari af stað á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×