Fótbolti

Mourinho: Já, við erum úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, sést hér vera rekinn upp í stúku.
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, sést hér vera rekinn upp í stúku. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, viðurkenndi það eftir 2-0 tap á heimavelli í fyrri leiknum á móti Barcelona í Meistaradeildinni í kvöld að liðið ætti litla sem enga möguleika á því að komast áfram í úrslitaleikinn á Wembley.

„Við náðum ekki að kalla fram annað kraftaverk með tíu menn," sagði Jose Mourinho öskureiður á blaðamannafundi eftir leikinn en lið hans virðast alltaf missa mann af velli á móti Barcelona. Að þessu sinni fékk Pepe rauða spjaldið á 61. mínútu í stöðunni 0-0.

„Já við erum úr leik. Við munum fara á Camp Nou og reyna allt sem við getum til þess að ná nógu góðum úrslitum en ég sé það samt ekki gerast," sagði Mourinho en Real tapaði 5-0 á móti Barcelona ´þegar liðið mætti síðast á Camp Nou.

„Við verðum án Pepe og (Sergio) Ramos sem gerðu ekki neitt af sér og það gerði ég ekki heldur. Ég vildi bara fá að vita af hverju Pepe fékk rauða spjaldið. Ég spurði bara af hverju og vildi bara að einhver myndi segja mér ástæðuna" sagði Mourinho sem var rekinn upp í stúku fyrir að mótmæla brottrekstri landa síns.

„Það er hægt að óska frábæru fótboltaliði til hamingju en það hlýtur að vera erfitt fyrir eitt félag að hafa allt þetta vald. Ég ber mikla virðingu fyrir Pep Guardiola, bæði sem þjálfara og sem persónu, en ég vildi þó sjá hann vinna Meistaradeildina án svona skandals,"sagði Mourinho mjög ósáttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×