Innlent

Bíóferð fjölskyldunnar kostar um 7.000 krónur

Bíóferð fyrir fjögurra manna fjölskyldu, tvo fullorðna og tvö börn á aldrinum 9-12 ára, getur auðveldlega kostað nálægt sjö þúsund krónum. Þessa upphæð þarf fjölskyldan að greiða ef keypt er lítil kók og lítill poki af poppkorni handa hverjum og einum ásamt bíómiðum þegar engin tilboð eru.

Hjá Sambíóunum er almennt miðaverð fyrir fullorðna 1.200 krónur og miðaverð fyrir 9-12 ára 1.100 krónur. Verð bíómiðanna fyrir fjölskylduna er þess vegna 4.600 krónur. Lítil kók kostar 285 krónur og lítill poki af poppkorni kostar 270 krónur. Samtals kostar meðlætið 2.220 krónur fyrir fjóra.

Alls þarf fjölskyldan að greiða 6.820 krónur fyrir skemmtunina án tilboða. Alfreð Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, segir miðaverð hafa hækkað um 50 krónur 2. maí síðastliðinn.

„Árið 2002 kostaði bíómiðinn 800 krónur en ef við reiknum verðhækkunina miðað við neysluverðsvísitölu 2011 ætti bíómiðinn að kosta 1.313 krónur en hann kostar aðeins 1.200 krónur."

Almennt miðaverð fyrir börn yngri en 9 ára er 700 krónur og fyrir eldri borgara og öryrkja 900 krónur. Miði í lúxussal kostar 2.400 krónur. Þrívíddarmiðaverð er hærra fyrir alla aldurshópa eða sem nemur um 16 prósentum, að sögn Árna.

„Ástæðan fyrir því að miðaverð á myndir sýndar í þrívídd er hærra en á myndir í tvívídd er dýrari tæknibúnaður sem notaður er við sýningarnar auk þess sem myndirnar eru dýrari í framleiðslu. Þær njóta hins vegar mikilla vinsælda. Í fyrra voru 22 prósent af sýndum myndum í þrívídd en í ár verður fjöldinn að öllum líkindum 30 prósent."

Til þess að draga úr kostnaði við bíóferð er um að gera að nýta sér tilboðin sem í boði eru. Á þriðjudögum kostar miðinn hjá Sambíóum 750 krónur fyrir fullorðna. Um helgar er boðið upp á Sparbíó fyrir fjölskylduna."

Til þess að létta undir með fólki bjóðum við auk þessa mörg önnur tilboð sem lesa má um á vefsíðunni okkar."

Jón Eiríkur Jóhannsson, rekstrarstjóri Háskólabíós og Smárabíós, segir almennt miðaverð, sem er 1.200 krónur, lækka um 100 krónur sé miðinn keyptur á netinu. Þessi kvikmyndahús bjóða jafnframt upp á tilboð á þriðjudögum og um helgar og það gerir einnig Laugarásbíó.

Almennt miðaverð í Laugarásbíói er 1.100 krónur. Sé miðinn keyptur á netinu er gefinn 50 króna afsláttur.

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×