Innlent

Vilja takmarka ábyrgð flugfélaga eftir gosið í Eyjafjallajökli

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði ófyrirséðar afleiðingar
Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði ófyrirséðar afleiðingar
Eldgosið í Eyjafjallajökli gæti orðið til að fólk fái flugmiða sína í framtíðina ekki bætta þó að ferðir falli niður vegna óveðurs eða náttúruhamfara.

Þúsundir manna urðu strandaglópar eða komust ekki leiðar sinnar þegar gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli setti flugumferð á norðurhveli jarðar úr skorðum í tíu daga fyrir rúmu ári. Flugfarþegar í Evrópu gátu hins vegar stólað á reglur Evrópusambandsins sem kveða á um að flugfélög bæti farþegum innan Evrópu tjónið sem þeir verða fyrir vegna seinkana - og sömuleiðis farþegum sem eiga bókað flug með evrópskum flugfélögum til annarra heimsálfa. Flugfélögin voru hins vegar ekki sátt við þá ráðstöfnun og sögðu regluna setta til að bæta fólki upp um það bil sólarhringsseinkanir en ekki svo viðamikla truflun. Þetta kemur fram á breska fjármálafréttavefnum, This is money.

En þar kemur einnig fram að nú íhugi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að takmarka ábyrgð flugfélaga þegar flugumferð truflast vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Og hvort setja eigi þak á bætur félaganna til farþega. Flugfélögin telja að ferðatryggingar eigi að bæta fólki upp tap vegna seinkana - það gæti hins vegar orðið flókið ef flugumferð raskast vegna til dæmis eldgosa því gjarnan eru náttúruhamfarir undanskildar í orðalagi tryggingaskilmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×