Innlent

Bæjarstjórnarmenn vonsviknir með athugun á flutningi Gæslunnar

Bæjarstjórnin í Reykjanesbæ er vonsvikin með niðurstöður innanríkisráðuneytisins vegna hagkvæmniathugunar Deloitte á kostnaði við að flytja Landhelgisgæsluna á Keflavíkurflugvöll.

Í ályktun bæjarstjórnarinnar segir að í könnuninni sé kostnaður við rekstur gæslunnar „eins og hann er í dag, þar sem fyrirkomulag áhugamannaliðs er við líði, starfsmenn á bakvöktum og útkallstími því umtalsverður, borin saman við rekstur atvinnumannaliðs þar sem starfsmenn eru á vakt öllum stundum, starfsmannafjöldi langtum meiri og útkallstími því miklu styttri.“

Þá benda þeir á að gert sé ráð fyrir því að ríkissjóður þurfi að greiða starfsmönnum laun og bílastyrki fyrir að aka til vinnu í Reykjanesbæ, greiðslur sem Suðurnesjamenn þekki ekki til að fá greiddar þrátt fyrir störf á höfuðborgarsvæðinu.

„Sá kostnaður sem Deloitte telur að hljótist af flutningi gæslunnar til Suðurnesja er því ekki vegna flutningsins heldur vegna þeirrar hugmyndar að stórauka starfsemi gæslunnar, fjölga starfsmönnum og auka öryggi þeirra sem þurfa á þjónustu gæslunnar að halda,“ segir einnig.

Bæjarstjórnin segir ennfremur að ekki sé lagt  mat á að með flutningunum muni rekstur og þjónusta gæslunnar aukast og að styttra sé á þjónustusvæði gæslunnar frá Reykjanesbæ. „Ekki er heldur lagt mat á að húsakostur sá er Landhelgisgæslunni stendur til boða á Keflavíkurflugvelli er í raun eins og hannaður fyrir það hlutverk sem hún á að sinna.  Þá eru þau verkefni sem áður voru hjá Varnarmálastofnun og Landhelgisgæslan sinnir nú, í uppnámi og hætta er á að þau störf flytjist úr landi, sinni Landhelgisgæslan þeim ekki.“

Að mati bæjarstjórnarinnar er ófært að að hagkvæmnisathugunin skuli ekki taka til þess að kanna tækifærin sem felist í því að láta Landhelgisgæsluna taka yfir störf fyrrum Varnarmálastofnunar.

„Mikilvægt er að samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum fari rækilega yfir þá vinnu sem þegar hefur verið lögð fram og vinni áfram að því að fullgera hagkvæmniathugun þar sem samræmis er gætt í samanburðartölum og allir kostir verkefnisins eru skoðaðir og metnir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×