Innlent

Sendiherra segir fall Bin Laden mikilvægan áfanga

Andri Ólafsson skrifar
Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi segir að fall Osama Bin Laden sé mikilvægur áfangi í stríðinu gegn hryðjuverkum en marki ekki endalok þess. Luis Arreaga sendiherra Bandaríkjanna hér á landi fagnar því að Bin Laden hafi náðst enda hafi hann verið svarinn óvinur bandaríkjanna með líf þúsunda manna á samviskunni.

„Osama bin Laden var svarinn andstæðingur Bandaríkjanna og mannkyninu stafaði hætta af honum. Hann ber ábyrgð á dauða þúsunda manna, kvenna og barna af öllum þjóðernum, allra trúarbragða, þ.m.t. múslimatrúar, í Afríku, New York, Jemen, Balí, Madríd og Istanbúl svo fátt eitt sé nefnt. Hugur okkar og bænir eru hjá fjölskyldunum sem misstu ástvini sína á mörgum þessum stöðum," segir Luis Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.

Dauði Bin Ladens er mikilvægur áfangi segir Arreaga Þ en stríðið er ekki unnið. Bandaríkin hafi þó í nótt sent skýr skilaboð um að hryðjuverkamenn verði eltir svo lengi sem nauðsyn krefur. Almenningur í Bandaríkjunum fagnaði tíðindum af dauða bin laden á götum úti. Areega segir það skiljanlegt endi hafi árásirnar sem hann skipulagði markað djúp spor í bandarískt samfélag.

„Maður þarf að hafa verið í Bandaríkjunum til að skilja hve djúpstæð áhrif 11. september hafði á samfélagið. Sú staðreynd að Osama bin Laden hafði ekki náðst hefur viðhaldið vissu óþoli og ég tel að það hafi létt mikið á fólki að vita til þess að þessi einstaklingur, sem er svarinn óvinur og vildi skaða okkur sem mest hann mátti, sé ekki lengur á meðal vor. Ég tel að fólk hafi aðeins verið að láta í ljós létti en það er þó ekki þar með sagt að hættan sé liðin hjá," segir sendiherrann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×