Erlent

Osama Bin Laden er látinn

Osama Bin Laden er fallinn
Osama Bin Laden er fallinn
Osama Bin Laden, leiðtogi Al-Kaída-hryðjuverkasamtakanna, er látinn. Þetta tilkynnti Barack Obama Bandaríkjaforseti í ávarpi til þjóðar sinnar nú fyrir stundu.

Forsetinn sagðist hafa heimilað aðgerðina í síðustu viku og að fámenn bandarísk hersveit hefði síðan gert áhlaup á höll skammt utan við Islamabad, höfuðborg Pakistans, í gær, sunnudag, þar sem Bin Laden hafi fallið. Bandarísk yfirvöld munu nú hafa lík hans undir höndum.

Osama Bin Laden hefur verið efstur á lista Bandaríkjamanna yfir eftirlýsta glæpamenn í áratug, eða allt frá árásunum á Tvíburaturnana í New York 11. september 2001.

Obama sagði í ávarpi sínu að Bandaríkjamenn hefðu vitað hvar Bin Laden væri niður kominn síðan í ágúst en hefðu undirbúið vel það sem forsetinn kallaði Aðgerð Bin Laden.

"Í kvöld getum við sagt við fjölskyldur þeirra sem hafa fallið í þessu stríði: Réttlætinu hefur verið fullnægt,“ sagði Obama.

Þegar fregnirnar tóku að spyrjast út brutust út fagnaðarlæti við Hvíta húsið í Washington þar sem fólk kyrjaði "USA! USA!“ í sífellu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×