Samkvæmt þýskum fjölmiðlum hafa ensku úrvalsdeildarfélögin Everton og Fulham áhuga á að kaupa Gylfa Þór Sigurðsson frá Hoffenheim. Það kemur hins vegar ekki til greina, segja forráðamenn þýska liðsins.
Gylfi kom til Hoffenheim í haust og hefur staðið sig vel. Hann er markahæsti leikmaður liðsins í deildinni með níu mörk en um síðustu helgi lagði hann upp eitt mark og skoraði annað í 2-1 útsigri á Nürnberg.
„Gylfi er mikilvægur leikmaður í okkar framtíðaráætlunum og því kemur alls ekki til greina að selja hann,“ sagði Ernst Tanner, framkvæmdarstjóri Hoffenheim, við Kicker. Gylfi er samningsbundinn Hoffenheim til 2014. Hann hefur áður verið orðaður við hin ýmsu lið víða um Evrópu.
Fótbolti