Erlent

Dóttir Heinrich Himmlers enn að berjast fyrir nasista

Gudrun Burwitz rúmlega áttræð dóttir nasistaforingjans Heinrich Himmler vinnur enn að hugsjónum föður síns.

Breska blaðið Daily Mail greinir frá því að Gudrun sé orðinn leiðtogi samtakanna Stille Hilfe sem hafa það hlutverk að aðstoða gamla nasista á flótta og að koma í veg fyrir að þeir verði dæmdir fyrir glæpi sína. Samtökin voru stofnuð árið 1951 af fyrrum meðlimum SS sveitanna.

Blaðið vitnar í nasistasérfræðinginn Andrea Roepke sem segir að fyrir utan að aðstoða þá síðustu af gömlu nasistunum safni Stille Hilfe einnig fé fyrir samtök nýnasista. Gudrun Burwitz er sem stendur að berjast gegn því að fyrrum SS foringinn Klaas Carel Faber verði framseldur til Þýskalands en hann þjónaði í SS sveitunum í Hollandi í seinni heimstryjöldinni og er ásakaður um morð á fjölda gyðinga þar í landi.

Daily Mail náði tali af Gudrun sem býr í Munchen en hún sagði blaðinu að hún ræddi aldrei um vinnu sína. Það fylgir sögunni að Gudrun þykir fyrirmynd meðal nýnasista í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×