Innlent

Ferðamenn afbóka hótelgistingar - „Tökum einn dag í einu“

Búið er að loka þjóðveginum
Búið er að loka þjóðveginum Mynd/Vilhelm Gunnarsson
„Þetta eru eðlilega slæm tíðindi og raskar öllum okkar plönum. Við tökum bara einn dag í einu og reynum að vera bjartsýn á framhaldið," segir Karl Rafnsson hótelstjóri á Hótel Klaustri.

Hlaup hófst í Múlakvísl í gærkvöldi og var þjóðvegi 1 lokað þar sem hann rofnaði austan við Höfðabrekku. Brúin yfir Múlakvísl er farin en hún var 128 metra löng og byggð árið 1990. Fjallabaksleiðirnar eru opnar en þær eru eingöngu færar jeppum og stærri bílum. Litlir fólks bílar þurfa því að keyra hina leiðina í kringum landið til að komast á Kirkjubæjarklaustur.

Karl segir að margir ferðamenn hafi verið á hótelinu í nótt en þeir hafi flestir farið í morgun. „Sem betur fer voru flestir á leið í austurátt,“ segir hann. Von er á hópi ferðamanna í kvöld sem eru að koma að austan. „Það er alveg óútséð hvernig það fer.“

Talsvert hefur verið um afbókanir í dag en það eru ferðamenn sem eru komnir til landsins og komast hreinlega ekki á áfangastað. Karl segir að afbókanir hafi ekki borist erlendis frá en „það er eitthvað sem við megum búa okkur undir,“ segir hann.

„Við reynum bara að vera brött en við gengum í gegnum þetta í fyrra og aftur núna. Það er ekki gott að þetta fari að verða árlegur viðburður ef þetta fer að gerast tvisvar á ári,“ segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×