Innlent

Hnífstunga á Bestu útihátíðinni

Um átta þúsund manns eru nú á Bestu útihátíðinni á Gaddstaðaflötum við Hellu. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var nóg að gera hjá þeim í nótt, talsverðir pústrar í gangi og nokkur óróleiki eins og það var orðað. Einn var stunginn með hnífi en sá mun ekki hafa slasast alvarlega. Sá sem lagði til hans er nú vistaður í fangageymslum og er málið í rannsókn. Þá var tilkynnt um eina líkamsárás á svæðinu.

Lögreglan segir þó að hátíðarhöldin hafi almennt séð gengið vel fyrir sig.

Fregnir af Kötlugosi hafa sett strik í reikninginn fyrir löggæsluna á svæðinu og hefur auka mannskapur verið kallaður út vegna þess. Að sögn vaktstjóra lögreglunnar eru líklega á bilinu þrjátíu til fjörutíu lögreglumenn komnir á svæðið.

Tveir voru vistaðir í fangageymslum lögreglunnar á Hvolsvelli og einn á Selfossi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×