Innlent

Herjólfur siglir ekki vegna veðurs - Um tvö þúsund manns strandaglópar

Boði Logason skrifar
Herjólfur
Herjólfur Mynd úr safni
„Við áætlum að hér séu um fimmtán hundruð til tvö þúsund manns sem bíða eftir að komast heim til sín," segir Kristín Jóhannsdóttir, menningar- og markaðfulltrúi Vestmannaeyjabæjar, sem sér um Goslokahátíðina sem fór fram um helgina á eyjunni.

Tvær ferðir Herjólfs í Vestmannaeyjum féllu niður í dag vegna veðurs, klukkan 11:30 og klukkan 17: 30. Ferjan fór þó til Landeyjahafnar kl. 08:30 í morgun og kl. 14:30. Gert er ráð fyrir að Herjólfur fari til Landeyjahafnar kl. 20:30 og þá er búið að bæta við aukaferð klukkan 23 frá Eyjum.

Veðrið er að skána í Eyjum og því eru menn bjartsýnir á að ferjan geti farið til Landeyjahafnar þegar líða tekur á kvöldið.

„Menn eru bara að bíða á tjaldsvæðum eða í heimahúsum. Við gerum okkur vonir um að geta komið öllum heim með aukaferðum í kvöld," segir Kristín en um sex hundruð hafa komist af eyjunni með Herjólfi í þessum tveimur ferðum í dag.

Þó að menn bíði eftir því að komast heim fer vel um alla, segir Kristín. „Það eru flestir gamlir Vestmannaeyingar og eru að heimsækja vini og ættingja svo það fer vel um alla," segir hún en um 2500 til 3000 gestir heimsóttu eyjuna í tilefni af Goslokahátíðinni sem fór fram um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×