Innlent

Íslenskt fyrirtæki og Wikileaks ætla í mál við Visa og Mastercard

Mynd úr safni
Datacell ehf. og Wikileaks ætla að höfða mál á hendur kortafyrirtækjunum Visa og Mastercard í Danmörku og á Íslandi vegna afskipta af greiðslum til Wikileaks. Þá ætla fyrirtækin að kvarta til Evrópusambandsins vegna meintrar misnotkunar stóru kortafyrirtækjanna á markaðsráðandi stöðu en þau eru með nær 100 prósent markaðarins í Evrópu.

Viðurlögin við brotum á samkeppnisreglum Evrópusambandsins eru sektir sem geta numið allt að 10 prósent af veltu viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu. Þar að auki er nú í nær öllum EES ríkjum unnt að höfða mál á hendur brotlegum fyrirtækjum til heimtu skaðabóta fyrir það tjón sem þau hafa valdið með samkeppnisbrotum sínum.

Datacell er íslenskt fyrirtæki sem hýsir vefsíðu Wikileaks en í lok síðasta árs fóru bandarísk stjórnvöld fram á að Visa og Mastercard skyldu loka á greiðslur til Wikileaks í gegnum Datacell.

DataCell sótti strax í kjölfarið um að fá aðgang að alþjóðlegu greiðslukortakerfunum í gegnum önnur aðildarfyrirtæki þeirra, til dæmis í Sviss, en án árangurs. Wikileaks segir að samtökin hafi orðið fyrir milljóna tjóni vegna lokunarinnar.

Rök DataCell eru meðal annars þau að í engu landi hafi verið sýnt fram á að starfsemi Wikileaks sé andstæð lögum. Engin eignar- eða stjórnunartengsl séu á milli DataCell og Wikileaks og samskipti þeirra sé einungis viðskiptalegs eðlis. Þá sé þjónustan sem DataCell veitir Wikileaks á engan hátt frábrugðin þeirri greiðslugáttarþjónustu sem samkeppnisaðilar DataCell veita samtökum og fyrirtækjum í Evrópu og um víðan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×