Innlent

Áður óbirtar teikningar eftir Kjarval fundust í Skotlandi

Jóhannes Kjarval prýðir tvö þúsund króna seðilinn. Þótt margir velti því eflaust ekki fyrir sér þá hafa þúsundir Íslendinga Jóhannes Kjarval milli handanna á degi hverjum, en ekki í bókstaflegri merkingu. Hann er af mörgum talinn einn fremsti listmálari í sögu íslensku þjóðarinnar.
Jóhannes Kjarval prýðir tvö þúsund króna seðilinn. Þótt margir velti því eflaust ekki fyrir sér þá hafa þúsundir Íslendinga Jóhannes Kjarval milli handanna á degi hverjum, en ekki í bókstaflegri merkingu. Hann er af mörgum talinn einn fremsti listmálari í sögu íslensku þjóðarinnar.
Áður óbirtar teikningar eftir stórmeistarann Jóhannes Kjarval fundust nýlega í Skotlandi. Það var blaðamaður sem fann þær fyrir tilviljun þegar hann var að grúska í skjölum á ættaróðali skosks Íslandsvinar.

Einar Falur Ingólfsson blaðamaður og ljósmyndari á Morgunblaðinu var nýlega í skosku hálöndunum á heimaslóðum Skotans R.N Stewart hershöfðingja sem hér dvaldist á sumrin áratugum saman á fyrri hluta síðustu aldar í laxveiði, en Stewart þessi var laxveiðimaður af mikilli ástríðu. Í rúma tvo áratugi var hann með veiðiréttindi í Hrútafjarðará og Síká og gaf m.a út bókina Rivers of Iceland árið 1950.

Einar Falur, sem er mikill veiðiáhugamaður sjálfur, vinnur að þýðingu bókarinnar Rivers of Iceland fyrir Hið íslenska bókmenntafélag og var hann staddur á ættaróðali Skotans í skosku hálöndunum fyrir skömmu þegar hann fann teikningarnar eftir Kjarval innbundnar í bók um skráningar á veiði Stewarts í Hrútafirði sumarið 1950. Virtust teikningarnar hafa legið þar óhreyfðar í rúmlega sextíu ár. Um er að ræða sex teikningar með sendibréfi frá meistaranum þar sem Kjarval er að þakka Stewart fyrir bókina sem hann virðist hafa verið ánægður með, að því fram kemur í Sunnudagsmogganum. Sendibréf meistarans er myndskreytt með andlitum og fígúrum í þeim anda sem oft birtust í verkum Kjarvals á sjötta áratugnum, en bréfið mun vera sent í febrúar árið 1950. Fjölskylda Stewarts hafði ekki hugmynd um tilvist myndanna. Þaðan af síður að höfundurinn væri mikils metinn listamaður.

Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, segir að myndirnar sex séu svipaðar myndum sem Kjarval hafi málað frá þessum árum. Hann segir að um merkilegan fund sé að ræða, en það sem geri þær áhugaverðar sé þessi saga um samskiptin við skoska laxveiðimanninn. Aðspurður segir hann að Kjarval hafi ekki verið sérstakur áhugamaður sjálfur um laxveiði, en hann hafi haft áhuga á fiskum. „Ég veit ekki til þess að hann hafi nokkru sinni kastað flugu," segir Aðalsteinn.

Rivers of Iceland var ekki eina bókin sem Stewart gaf út um laxveiði á Íslandi því hann gaf einnig út handbókina Hrútafjarðará og Síká, en í þessum bókum eru merkar heimildir um veiðiskap Stewarts og félaga hans á árunum 1936 til 1957. Ekki aðeins er þar fjallað um Hrútafjarðará og Síká heldur einnnig Straumfjarðará, Laxá í Dölum, Vatnsdalsá, Víðidalsá, Miðfjarðará og á sem hann kallaði Laxá við Blönduós en nú er kennd við Ása. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×