Innlent

Tekinn tvisvar sama daginn

Mynd úr safni
Lögreglan á Selfossi og Þyrludeild Landhelgisgæslunnar sinntu umferðareftirliti úr þyrlu í gærkvöldi. Farið var um Suður-, Vestur- og Norðurland og umferðinni fylgt eftir.

Almennt var ökuhraði hófstilltur og ekki tilefni til afskipta, segir í tilkynningu frá lögreglu.

Einn ökumaður var þó kærður fyrir að aka á 141 km/klst hraða á Norðurlandsvegi skammt frá Hvammstanga.  

Hann lét sér ekki segjast eftir þau afskipti og var stöðvaður skömmu síðar á 120 km/klst hraða af lögreglunni á Blönduósi.  

Fyrir fyrra brotið má hann búast við 130 þúsund króna sekt og þremur punktum í ökuferilsskrá en seinna brotið varðar 50 þúsund króna sekt og einum punkti.  

Töluverður fjöldi ökumanna var stöðvaður og látinn blása í áfengismæli en allir reyndust alsgáðir.  

Fleiri eftirlitsferðir eru ráðgerðar með þyrlu LHG um helgina en afar hentugt hefur reynst að nýta fastbundið æfingaflug flugmanna til eftirlits sem þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×