Innlent

Stofnunum og ráðuneytum fækkað

Mynd/Stefán Karlsson
Ráðuneytum og stofnunum ríkisins hefur fækkað um 30 frá því í ársbyrjun 2010 en fækkunin nemur 15% af heildarfjölda stofnana. Í byrjun árs 2010 boðaði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að stofnunum yrði fækkað og þær ýmist lagðar niður eða sameinaðar öðrum. Hún sagði raunhæft að fækka stofnunum ríkisins um allt að þriðjung.

Verði fjögur frumvörp Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, sem eru nú til meðferðar á Alþingi, að lögum í september mun stofnunum fækka um 10 til viðbótar, að því er fram kemur á vef forsætisráðuneytisins. Nú hefur um helmingur af upphaflegum áætlunum um fækkun ráðuneyta og stofnana um 60-80 á árunum 2010-2012 gengið eftir.

Ráðuneytum hefur verið fækkað úr 12 í 10 með stofnun velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis með verkefnum sem áður voru í fjórum ráðuneytum, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti.  Áform eru uppi um frekari fækkun ráðuneyta í 9 með stofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×