Innlent

400 manns hafa sent inn saursýni

400 manns hafa sent Heilsuvernd sýni til greiningar á ristilkrabbameini frá því að sala á greiningarprófi hófst fyrir þremur mánuðum. Nokkrir hafa greinst með meinið á læknanlegu stigi.

Greiningarprófið fæst í apótekum Lyfju hér á landi en úrvinnsla sýna og eftirfylgd með niðurstöðum fer fram hjá Heilsuvernd. Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, segir verkefnið hafa farið vel af stað. „Við höfum fundið nokkur kirtilæxli eða forstig af meini og það hefur verið gert með því að senda fólk til speglunar sem hefur greinst jákvætt með blóð í hægðum."

Prófið, sem er auðvelt í notkun, og eftirfylgdin kosta tæpar 5000 krónur. Ríkið tekur ekki þátt í kostnaðinum en það gera hinsvegar stéttarfélög og sjúkrasjóðir.

„Það er búið að vera mjög lengi þessi umræða um að hefja skimun og mörg lönd í kringum okkur eru þegar búin að gera þetta í mörg ár. Þannig að við töldum ekkert vit í því hreinlega að bíða eftir að ríkið færi af stað," segir Teitur.

Hann segir ristilspeglun vera bestu leiðina til að greina sjúkdóminn en að ómögulegt sé að senda alla, sem eru í áhættuhópi, í svo viðamikla rannsókn. Prófið þrengi hins vegar þann hóp sem þarf á ristilspeglun að halda.

„Þetta er annað algengasta dánarmein að völdum krabbameina á Íslandi og þriðja algengasta mein beggja kynja, þannig að þetta skiptir gríðarlegu máli. Það eru um 150 einstaklingar sem greinast á ári og 50 sem látast þannig að hver sá sem við finnum, sérstaklega því yngri sem hann er því meira skiptir það máli fyrir bæði þjóðarbúið, einstaklinginn og alla sem að því koma," segir Teitur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×