Innlent

Segir ljósmæður hafa setið eftir í launaþróun

Sex mánaða framlenging á samningi ljósmæðra við Sjúkratryggingar Íslands tók gildi í dag. Stéttin hefur setið eftir í launaþróun, segir ljósmóðir.

Framlengingin þýðir að foreldrum, og nýfæddum börnum þeirra, mun áfram standa til boða að fá heimaþjónustu ljósmæðra. Þjónustan hefur þó tekið nokkrum breytingum, en nú fá konur, sem ekki hafa átt eðlilega meðgöngu eða fæðingu, að dvelja á spítala eftir fæðingu í 48 klukkustundir í stað 36 án þess að missa rétt á heimaþjónustu.

Guðrún Gunnlaugsdóttir, ljósmóðir, segir breytinguna skref í rétta átt. „Það var náttúrulega slæmt þegar konur þurftu á 38-40 tímum að halda en misstu þar af leiðandi af heimaþjónustunni."

Samkvæmt nýja samningnum á hraust kona, sem hefur áður eignast barn, rétt á heimaþjónustu ljósmóður í allt að sex skipti í stað átta, en í tilfelli frumbyrja fækkar þeim úr átta í sjö. Þá eiga konur rétt á átta vitjunum, eða sama fjölda og áður, ef fæðing eða meðganga hefur ekki gengið eðlilega fyrir sig. Þegar talið berst að kjörum ljósmæðra segir Guðrún starfssystur sínar ekki sáttar. „Það má eiginlega segja að það sé ljósmæðrahjartað sem vinnur þarna."

Þá bendir Guðrún á að laun ljósmæðra hafi hækkað um 170 krónur á vitjun frá 2009. „Öll vitum við að það dugar ekki einu sinni fyrir einum lítra af bensín." Hún segir ljósmæður langt á eftir öðrum starfstéttum hvað launaþróun varðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×