Innlent

Hrósaði Íslendingum í hástert fyrir störf í Kabúl

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Í dag eru 150 þúsund hermenn á vegum Atlantshafsbandalagsins á átakasvæðum að sinna hinum ýmsu verkefnum. Varaframkvæmdastjóri bandalagsins hrósaði vinnu Íslendinga í Kabúl í Afganistan sérstaklega í fyrirlestri í Öskju í dag.

Lítill hópur mótmælenda var fyrir utan Öskju og grýtti skóm í mynd af Anders Fogh Rassmussen, framkvæmdastjóra NATÓ. Að sögn Stefáns Pálssonar sagnfræðings og eins af forsvarsmönnum samtaka hernaðarandstæðinga var þetta gert að fyrirmynd þeirra í Mið-Austurlöndum sem grýta skóm til að tjá vanþóknun sína.

Claudio Bisogniero, sem er Ítali og varaframkvæmdastjóri bandalagsins, vék að skuldbindingum þess á mörgum vígstöðvum í heiminum. „Á meðan við erum í þessum sal, og njótum þægindanna í honum, eru 150 þúsund karlar og konur, hugrakkir karlar og konur, á vettvangi í þremur heimsálfum og framfylgja sex aðgerðum undir stjórn NATO," sagði Bisogniero.

Bisogniero vék sérstaklega að góðu sambandi við Ísland á erindinu og starfi Íslands í Kabúl. „Áður hafið þið veitt hjálp í Kosovo. Núna veitið þið mikilvægan stuðning í Afganistan. Áður hjálpuðuð þið við flugumferðarstjórn á flugvellinum í Kabúl, sem var mjög mikilvægt. Og núna veitið þið framúrskarandi stuðning við skrifstofu borgaralegra fulltrúa (í Kabúl innsk.blm)," sagði Bisogniero.

Bisogniero var á fundinum í dag spurður um samband NATÓ og Rússlands og breytt eðli þess. Hann sagði ágreining um stór mál við Rússland, en NATÓ og Rússar ættu sameiginlega hagsmuni og vilji væri til nánara samstarfs. Og að erindinu loknu gengu þeir saman og áttu kurteist spjall, Bisogniero og sendiherra Rússa á Íslandi, Andrey Tsyganov. Eflaust allt nóterað af ritara sendiherrans og sent á skrifstofu Medvedevs í Moskvu, en hann var með sendiherranum á fundinum. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×