Innlent

Spuni slær nýtt heimsmet - toppar sjálfan sig

Spuni er nú með tíu í einkunn fyrir geðslag og vilja, og tíu fyrir skeið
Spuni er nú með tíu í einkunn fyrir geðslag og vilja, og tíu fyrir skeið Mynd Óðinn Örn/Eiðfaxi
Stóðhesturinn Spuni bætti eigið heimsmet í dag þegar hann fékk tíu í einkunn fyrir vilja og geðslag.

Spuni, sem er í eigu Finns Ingólfssonar fyrrverandi ráðherra, er hæst dæmda kynbótahross sögunnar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að Spuninn sé nú metinn á um 40 til 50 milljónir. Finnur vildi sjálfur ekkert gefa út um verðmat hestsins þegar fréttastofa náði tali af honum fyrr í vikunni, og sagði ekki við hæfi að setja verðmiða á „barnið" sitt en Spuni kemur úr ræktun fjölskyldu Finns.

„Þórður Þorgeirsson sýnandi Spuna sýndi hestinn snilldarlega og dró fram það allra besta í hestinum. Hann reið tölt, skeið og

fet við slakan taum, sem sýndi greinilega frábært geðslag og þjálan vilja hestsins," segir á vef Landsmóts hestamanna sem nú stendur yfir á Vindheimamelum.

Í forskoðun á landsmótinu fyrr í vikunni fékk hann 9,5 fyrir geðslag og vilja, og sló þá þegar heimsmet með aðaleinkunn sinni. Þessi nýja stjarna meðal íslenskra hrossa toppaði því sjálfan sig í dag. Heildareinkunn hans fyrir hæfileika er nú 9,25 sem er hæsta einkunn sem hross hefur nokkru sinni hlotið.

Spuni er aðeins fimm vetra gamall og er þetta hans fyrsta mót. Hann er fyrsti hesturinn sem kemur úr ræktun fjölskyldu Finns og ljóst að hann er rísandi stjarna.

Sjá: Spuni toppar sjálfan sig


Tengdar fréttir

Heimsmet: Hæst dæmdi stóðhestur sögunnar

Stóðhesturinn Spuni frá Vesturkoti fór í ótrúlegar tölur í forskoðun fimm vetra stóðhesta nú í kvöld. Hann hlaut 9,17 fyrir hæfileika og var með 8,43 fyrir sköpulag. Aðaleinkunn hans er því 8,87 sem gerir hann að hæst dæmda stóðhesti í heimi.

Finnur Ingólfs: Þetta er enginn spuni!

Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og Seðlabankastjóri, er stoltur eigandi hæst dæmda stóðhests í heimi, Spuna frá Vesturkoti. Hesturinn keppir á Landsmóti hestamanna sem nú stendur yfir á Vindheimamelum. Spuni fékk 10 í einkunn fyrir skeið í forskoðun 5 vetra stóðhesta á dögunum og er aðaleinkunn hans eftir skoðunina 8,87 sem er heimsmet. Finnur er að vonum ánægður með þennan frábæra árangur. "Þetta er enginn spuni," segir hann glaðbeittur í morgunsárið. Heldur stutt er síðan Finnur byrjaði í hestamennskunni, um 2005, og hefur gengið vonum framar. Hann er nú, ásamt fjölskyldu sinni, kominn með eigin ræktun. "Þetta er fyrsti hesturinn okkar," segir Finnur um Spuna sem er enn ungur að árum. "Hann er bara krakki," tekur Finnur til orða en þar sem hesturinn er aðeins 5 vetra á hann sannarlega framtíðina fyrir sér. Spurður hvort hann hafi átt von á slíkum gæðingi í upphafi ræktunar segir Finnur: "Það er aldrei hægt að segja til um það. Enda vorum við kannski ekkert að velta því fyrir okkur. Við vorum bara að hugsa um að rækta góðan hest," segir hann. Það er óhætt að fullyrða að virði Spuna hafi margfaldast yfir nóttu með þessum glæsilegu dómum, en þetta er fyrsta keppnin sem hann tekur þátt í. Finnur veltir slíku þó lítið fyrir sér. "Ég hef ekki hugmynd um það. Enda skiptir það mig engu máli. Þú metur ekki virði barnanna þinna," segir hann. Nafnið Spuni er heldur óhefðbundið. Spurður hvort hann hafi nefnd hestinn sjálfur segir Finnur að fjölskyldan hafi gert það saman. "Þó minnir mig að dóttir mín hafi fengið hugmyndina að þessu nafni," segir hann. Spuni kemur undan Álfasteini frá Selfossi og Stelpu frá Meðalfelli sem er undan Oddi frá Selfossi og Eydísi frá Meðalfelli. Í einkunn fyrir geðslag á Landsmótinu fékk hann 9,5 og 9,0 fyrir tölt og brokk, auk þess að hafa fengið 10 fyrir skeið. Auk Spuna eru fleiri hestar fjölskyldunnar á mótinu en vart hægt að búast við viðlíka árangri.

Spuni Finns ekki falur

"Þetta var mögnuð stund,“ segir Finnur Ingólfsson, þegar hann lýsir því er tölur kynbótadómara voru lesnar upp á Landsmótinu á Vindheimamelum og til varð nýr heimsmeistari, Spuni frá Vesturkoti, fimm vetra, en hann fékk 8,87 í aðaleinkunn, hæstu einkunn í heimi sem stóðhestur hefur fengið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×