Innlent

Sokkabandið beðið um að breyta auglýsingu

salome@365.is skrifar
Kristín og Þóra Tómasdætur eru þáttastjórnendur Sokkabandsins á RÚV.
Kristín og Þóra Tómasdætur eru þáttastjórnendur Sokkabandsins á RÚV.
Bókaforlagið Salka kvartaði við RÚV vegna stiklu sem auglýsir útvarpsþátt á Rás 2, en stiklan inniheldur vísun í bókina „Tíu árum yngri á tíu vikum" sem forlagið gefur út. Þátturinn sem um ræðir heitir Sokkabandið og er stjórnað af Þóru og Kristínu Tómasdætrum.

„Tíu árum yngri á tíu dögum -Svona rugl ertu blessunarlega laus við í Sokkabandinu; útvarpsþætti um stelpur með vit í kollinum." segir í stiklunni, sem snýr út úr titli upphaflegu bókarinnar og breytir tíu vikna tímamarkinu í tíu daga.

Salka, sem auglýsir hjá RÚV hafði samband við auglýsingadeild vegna stiklunnar og í kjölfarið barst Þóru og Kristínu póstur frá RÚV þar sem þær voru beðnar að breyta henni. Þóra veltir því hinsvegar fyrir sér hvort það sé í lagi að auglýsendur hafi áhrif á dagskrárgerð, sjálfri þyki henni það ekki eðlilegt.

„Okkur finnst stundum verið að matreiða bölvaða vitleysu sem á að höfða sérstaklega til kvenna, á borð við það að kenna konum að verða tíu árum yngri á tíu vikum. Hver vill verða tíu árum yngri?" segir Þóra og bætir því við að hún hafi mikið velt því fyrir sér hvort hún eigi ekki heldur að bjóða upp á námskeið fyrir fólk sem vilji verða tíu árum eldri. „Það væri þó allavegana gáfulegra."

Þóra segist ekki vilja taka stikluna úr spilun en hún hafi þó ekki lokaorðið í þeirri ákvörðun. „Ég vil halda áfram að spila þennan treiler alveg út í gegn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×