Innlent

Þyrla kölluð út vegna alvarlegra veikinda á Kirkjubæjaklaustri

Þyrla Landhelgisgæslunnar. Myndin er úr safni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Myndin er úr safni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út vegna alvarlegra veikinda á Kirkjubæjarklaustri. Þá er bátur vélarvana á Breiðafirði en mikið annríki er í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, en allt stefnir í metfjölda skipa og báta á sjó í dag.

Samtals eru nú 962 bátar í fjareftirliti hjá Landhelgisgæslunni og fylgir því mikið annríki fyrir varðstjóra.

Aðstoðarbeiðni barst um klukkan níu í morgun frá fiskibát með þrjá menn um borð sem er með veiðarfæri í skrúfunni við Svefneyjar, suður af Hvallátrum.

Ekki er talin hætta á ferðum. Gott veður er á svæðinu en svartaþoka. Sett var út akkeri og bíða þeir nú eftir aðstoð. Búið er að hafa samband við nærstadda báta og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu en vonast er til að aðstoð berist sem fyrst en um vandfarið svæði er að ræða vegna skerja og grynninga.

Á sama tíma barst beiðni um aðstoð þyrlu frá lækni á Kirkjubæjarklaustri vegna alvarlegra veikinda. Þyrluáhöfn var samstundis kölluð út og reiknað er með að þyrlan lendi á Kirkjubæjarklaustri rúmlega tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×