Innlent

Byggja íbúðir fyrir aldraða á Kópavogstúni

Á myndinni eru, auk Guðríðar Arnardóttur, þeir: Jason Guðmundsson, fasteignasölunni Mikluborg, Magnús Jóhannsson, Dverghömrum, Ingólfur Antonsson, Samtökum aldraðra, Erling Garðar Jónasson, Samtökum aldraðra og Guðmundur R. Guðmundsson, Dverghömrum.
Á myndinni eru, auk Guðríðar Arnardóttur, þeir: Jason Guðmundsson, fasteignasölunni Mikluborg, Magnús Jóhannsson, Dverghömrum, Ingólfur Antonsson, Samtökum aldraðra, Erling Garðar Jónasson, Samtökum aldraðra og Guðmundur R. Guðmundsson, Dverghömrum.
Til stendur að reisa 28 íbúða fjölbýlishús fyrir eldri borgara á Kópavogstúni 2 til 4 á næstu tveimur árum samkvæmt viljayfirlýsingu byggingafyrirtækisins Dverghamra og Samtaka aldraðra sem undirrituð var fyrir helgi.

Samtök aldraðra auglýsa íbúðirnar meðal félagsmanna sinna og sjá um sölu þeirra en framkvæmdir eiga að hefjast þegar allar íbúðirnar hafa verið seldar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs, fagnar því að uppbygging á Kópavogstúni sé hafin á nýjan leik. „Það kemur ekki á óvart að Samtök aldraðra skuli bjóða félagsmönnum sínum íbúðir á þessum frábæra stað.Þetta er eitt besta byggingarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu. Hér er gott útivistarsvæði, stutt í Sundlaug Kópavogs og stutt á menningarholtið okkar sem og í ýmsa þjónustu í Hamraborginni. Í Kópavogi er kraftmikið félagsstarf aldraðra og vel búið að því í alla staði.“

Íbúðirnar verða tveggja, þriggja og fimm herbergja. Þær stærstu verða 200 fm. þakíbúðir en hinar verða um 80 til 130 fm. að stærð.

Dverghamrar fengu lóðina úthlutaða fyrir nokkrum árum. Í næsta nágrenni er þjónustumiðstöð sem Sunnuhlíðarsamtökin reka ásamt hjúkrunarheimili og tveimur fjölbýlishúsum fyrir aldraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×