Innlent

"Eins og að vera á tónleikum í útlöndum“

Frá tjaldsvæðinu á Gaddstaðaflötum þar sem hátíðin fór fram
Frá tjaldsvæðinu á Gaddstaðaflötum þar sem hátíðin fór fram Mynd/Vilhelm
„Við erum alveg í skýjunum bara, þetta gekk alveg vonum framar," segir Haraldur Ási Lárusson, einn aðstandenda Bestu útihátíðarinnar sem fór fram á Gaddstaðaflötum við Hellu um helgina. Hann segir að nú þurfi að taka sviðið niður og hreinsa til á svæðinu. „Við áætlum að vera búin að því fyrir klukkan ellefu í kvöld. Nú er starfsfólkið okkar bara að vakna og við erum að fara í þetta," segir hann.

Hann segir að um tíu þúsund manns hafi verið á svæðinu þegar mest lét og allt hafi farið vel fram. „Það voru miklu minni pústrar í nótt en gær enda var fólk orðið svo þreytt að það fóru flestir snemma í háttinn." Aðspurður hvort að aðalnúmer hátíðarinnar hljómsveitin Quarashi hafi staðið undir væntingum, segir Haraldur: „Þeir gerðu það fyrir allan peninginn - þetta var eins og að vera á tónleikum í útlöndum."

Varðstjóri hjá lögreglunni á Hvolsvelli segir að menn geti alveg verið sáttir eftir helgina en engin alvarleg atvik hafi komið upp. „Mennirnir sem voru að vinna þarna eru búnir að standa sig ótrúlega vel," segir hann. Þó kom slatti af fíkniefnamálum upp en það hafi mest verið skammtar til einkaneyslu.

Og áður en gestir hátíðarinnar halda heim á leið geta ökumenn fengið að blása í áfengismæli við útganginn. „Við bjóðum upp á þetta til að koma í veg fyrir vesen," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×