Íslenski boltinn

KR-ingar í bikarúrslitin annað árið í röð - tvö frá Baldri fyrir vestan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Rósa
Baldur Sigurðsson skoraði tvö mörk fyrir KR þegar liðið vann 4-1 sigur á BÍ/Bolungarvík í undanúrslitaleik liðanna á Torfnesvelli á Ísafirði í kvöld. KR-ingar skoruðu þrjú mörk á síðustu tíu mínútunum í leiknum. KR mætir Þór í úrslitaleik Valtors-bikarsins sem fer fram á Laugardalsvellinum 13. ágúst næstkomandi.

Baldur skoraði fyrra mark sitt á 37. mínútu eftir sendingu frá Gunnari Erni Jónssyni og það seinna á 80. mínútu eftir að hafa fengið skallasendingu frá Kjartani Henry Finnbogasyni. Hann kom KR yfir í báðum mörkunum en í bæði skiptin voru það fyrirgjafir frá Bjarna Guðjónssyni sem sköpuðu usla í vörn BÍ/Bolungarvíkur.

Gunnar Már Elíasson jafnaði leikinn með frábæru marki á 44. mínútu þegar hann tók boltann á lofti fyrir utan teig og staðan var 1-1 þar til þegar tíu mínútur voru eftir.

KR-ingar skoruðu þá tvö mörk með þriggja mínútna millibili, fyrst Baldur og svo Grétar Sigfinnur Sigurðarson með skalla eftir hornspyrnu frá Óskari Erni Haukssyni. Eftir það voru úrslitin ráðin en Gunnar Örn Jónsson innsiglaði sigurinn eftir frábæra stungusendingu frá Agli Jónssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×