Innlent

Farþegar Iceland Express strand á Alicante

Fresta þurfti heimferð farþega Iceland Express frá Alicante á Spáni í gærkvöldi en vélin átti að fara í loftið klukkan rúmlega ellefu að íslenskum tíma. 220 manns áttu pantað far með vélinni.

Vegna bilunar í hreyfli fer vélin ekki í loftið fyrr en að minnsta kosti um miðjan dag í dag. Í tilkynningu frá félaginu segir að tekist hafi að útvega farþegunum fæði og drykk og að um helmingur farþega hafi ákveðið að snúa aftur til íbúða sinna en margir Íslendingar eiga íbúðir á svæðinu.

Þá tókst ennfremur að útvega barnafjölskyldum sem á því þurftu að halda hótelherbergi. Tækjabúnaður flugvélarinnar, sem er að gerðinni Boeing 757-200, gaf til kynna við lendingu í Alicante að skoða þyrfti annan hreyfil hennar.

Að mati Iceland Express er nauðsynlegt að tæknimenn félagsins í Lundúnum taki hreyfilinn út af öryggisástæðum, áður en henni verður gefin heimild til að fljúga til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×