Allt útlit er fyrir að fresta þurfi leikjum í tveimur fyrstu umferðum spænska boltans. Samtök atvinnuknattspyrnumanna á Spáni (AFE) hafa boðað verkfall og vilja að samið verði um tryggingar á greiðslum til leikmanna verði félög þeirra gjaldþrota.
„Við erum samhljóma og harðákveðnir í því að fara í verkfall,“ sagði Luis Rubiales forseti AFE. Fyrstu leikirnir í efstu deildinni La Liga á Spáni eru fyrirhugaðir helgina 20. - 21. ágúst.
„Deildin hefst ekki fyrr en skrifað verður undir nýjan samning,“ bætti Rubiales við.
Rubiales krefst þess að stofnaður verði tryggingasjóður svo hægt verði að greiða leikmönnum laun verði félög þeirra gjaldþrota.
Á síðustu leiktíð tókst naumlega að koma í veg fyrir verkfall í næstefstu deildinni vegna þess að leikmenn hjá illa stöddum liðum höfðu ekki fengið greidd laun.

