Innlent

Hefur þrisvar sinnum reynt að tæla börn upp í bílinn

JMI skrifar
Ókunnugur maður hefur þrisvar sinnum reynt að tæla börn upp í bíl til sinn í Hafnarfirði á síðustu dögum. Skólastjóri segir málið grafalvarlegt og hvetur foreldra til að brýna fyrir börnum sínum að setjast ekki upp í bíl hjá ókunnugum.

Maðurinn er sagður vera feitlaginn og aka um á stórum, gömlum, bláum bandarískum bíl með skyggðum rúðum. Hann er sagður hafa kallað á stúlku fyrir utan Setbergsskóla í Hafnarfirði á miðvikudag.

„Hún reyndar vissi ekki hvort hann væri einn eða þeir væru tveir. Hann sagði að mamma hennar hefði lent í slysi og þær væru komnir til að sækja hana og keyra hana upp á spítala. Hún hljóp í burtu, hún var svo klók," segir Hrönn Bergþórsdóttir, aðstoðarskólastjóri Setbergsskóla.

Hrönn lét lögregluna vita, ræddi við starfsmenn, sendi bréf á alla foreldra og hafði sömuleiðis samband við skólastjóra annarra skóla í Hafnarfirði.

Móðir stráks í Setbergsskóla hafði svo samband við Hrönn um helgina og sagði manninn hafa reynt að tæla son sinn með sömu lygi á laugardagskvöld.

„Síðan hringdi í mig aðstoðarskólastjórinn í Lækjaskóla. Þá hafði sami bíll, að því er virðist, kallað á eina stúlku í dag í Lækjaskólahverfinu og sagt eitthvað svipað, að mamma hennar hefði lent í slysi og bauðst til að keyra hana."

Hrönn segir manninn verulega bíræfinn.

„Því hann er dálítið klókur með þetta. Börn gætu álpast inn í bílinn. Við erum vön því að þeim sé lofað sælgæti en að segja þetta er óvenju gróft finnst mér."

Hrönn hvetur því foreldra til að ræða við börnin sín og brýna fyrir þeim að fara aldrei upp í bíl með ókunnugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×