Innlent

Erlendur órói ógnar efnahagsbata Íslands

Eldgos og áframhaldandi órói á alþjóðlegum fjármalamörkuðum gæti stefnt efnahagsbata Íslands í voða að mati Alþjóðagaldeyrissjóðsins. Þetta kemur skýrslu sjóðsins um íslenskt efnahagslíf.

Skýrslan var unnin í tengslum við sjöttu og síðustu endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætlun Íslands.

Sjóðurinn telur að verulegur árangur hafi náðst í efnahagsmálum á undanförnum árum. Atvinnuleysi hafi minnkað, dregið hafi úr halla ríkissjóðs og búið sé að endurfjármagna bankakerfið að mestu leyti. Þá fagnar sjóðurinn ákvörðun Seðlabanka íslands um að hækka stýrivexti.

Sjóðurinn spáir 2,5% hagvexti á þessu ári og að hann verði 3,1% á því næsta.

Tafir á fjárfestingarverkefum geti þó haft áhrif á þessa spá. Óljós stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum sé ekki  til þess fallinn að auka fjárfestingu í greininni.

Í skýrslunni er ennfremur bent á þau atriði sem geta stefnt efnahagsbatanum í voða. Icesave málið sé þannig enn óleyst og óvíst hversu mikið kann að falla á ríkissjóð vegna þess. Órói á erlendum fármálamörkuðum getur einnig haft áhrif sem og hversu vel gengur að afnema gjaldeyrishöftin.  

Eldgosin í Eyjafjallajökli og í Grímsvötnum virðast einnig hafa náð að fanga athygli skýrsluhöfunda sem benda á að ekki sé hægt að líta framhjá mögulegum áhrifum eldgosa á íslenskt efnahagslíf. Síðustu eldgos hafi haft óveruleg áhrif á efnahagsbatanna en hættan á meiriháttar áföllum vegna náttúruhamfara af þessu tagi sé engu að síður fyrir hendi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×