Innlent

Segir engin merki um yfirvofandi áhlaup á flokksforystuna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jónmundur Guðmarsson er framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Mynd/ Vilhelm.
Jónmundur Guðmarsson er framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Mynd/ Vilhelm.
Sjálfstæðismenn hafa boðað til landsfundar þann 17. - 20. nóvember næstkomandi. Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri flokksins, segir að landsfundur sé kjörið tækifæri fyrir sjálfstæðismenn til að koma saman og stilla strengi. „Það er ljóst að það er engin ríkisstjórn að heitið getur starfandi í landinu. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft á stefnuskrá sinni allt aðrar leiðir um það hvernig efnahagslífið verður reist við, að farið sé í verkefni sem skapi hagvöxt og skapi störf,“ segir Jónmundur. Sú stefna feli í sér að greitt verði fyrir fjárfestingum. að undið verði ofan af skattastefnu ríkisstjórnarinnar farið verði í augljósustu fjárfestingar og verðmætasköpun.

„Ég hef í sjálfu sér ekkert um það að segja. Ég veit ekki til þess að slíkt sé í bígerð,“ segir Jónmundur, aðspurður um hvort hann eigi von á því að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, gæti fengið mótframboð á fundinum. Hann segir að sjálfstæðismenn sjái landsfundinn fyrst og fremst sem tækifæri til þess að stilla strengi fyrir næstu kosningar sem verði í síðasta lagi 2013.

Jónmundur á von á því að Evrópusambandsmálin verði eitt af stóru málunum á landsfundinum. „Evrópusambandsmálið hefur verið eitt af þeim málum sem hefur verið ofarlega á baugi mjög lengi á landsfundum sjálfstæðismanna,“ segir Jónmundur. Hann segir hins vegar að flokkurinn hafi mjög skýra stefnu í málinu. Sú stefna byggi á  á ályktun landsfundar frá því í fyrra og þeirri stefnu hafi formaður flokksins talað skýrt fyrir.

„Það eru engin merki um það,“ segir Jónmundur aðspurður um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn geti lent í sömu stöðu og Framsóknarflokkurinn lenti í um daginn. En eins og kunnugt er sagði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður flokksins, sig úr flokknum ásamt fleiri Evrópusinnum í flokknum. Það var meðal annars vegna ólíkra áherslna um Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×