Innlent

Jóhanna segir VG í hættulegum leik

Mynd/GVA
Forsætisráðherra segir ályktanir flokksráðsfundar Vinstri Grænna sem beinast að ráðherrum samfylkingarinnar óskiljanlegar. Hún styður sína ráðherra og segir ákvarðanir þeirra réttar. Það sé hins vegar hættulegur leikur fyrir ríkisstjórnina að takast á með ályktunum.

Flokksráðsfundur Vinstrigrænna, sem var haldinn um helgina, sendi frá sér ályktun þar sem m.a. er deilt á Össur Skarphéðinsson. Flokkurinn krafðist þess að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda þess að Össur lýsti yfir stuðningi, fyrir Íslands hönd, við aðgerðir Nato í Líbýu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segist hins vegar ósammála þessum ályktunum samstarfsflokki hennar í ríkisstjórn. Hún styður Össur algerlega í því máli, segir hann hafa fylgt öllum hefðum og bendir á að málið hafi verið rætt í ríkisstjórn.

Flokksráð Vinstri grænna lagði jafnframt til að hætt verði við frekari niðurskurð og skattar verði hækkaðir frekar í staðinn. Jóhanna hefur hins vegar litlar áhyggjur af því að fjármálaráðherra, sem er jafnframt formaður Vinstri grænna, fari eftir þeirri ályktun. Hún segir að búið sé að fara yfir fjárlögin í ríkisstjórninni og niðurstaða komin í það mál sem hún segist vonast til að ágætis samhljómur sé um.

Í síðustu viku gangrýndi þingflokkur VG síðan Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar, fyrir að setja af stjórn Byggðastofnunar og skipa nýja. Hún segir hins vegar engan titring vera að myndast í stjórnarsamstarfinu.

„Umfram allt eiga flokkarnir ekki að skiptast á skoðunum í gegnum ályktanir, það er alvarlegur leikur,“ segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×