Erlent

Hafa áhyggjur af gervihnetti sem er á leið til jarðar

NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna segist hafa áhyggjur af stórum gervihnetti sem innan skamms mun falla til jarðar. Stofnunin segir þó litlar líkur á því að fólk verði fyrir braki úr hnettinum. Gervihnötturinn er tuttugu ára gamall og var honum ætlað að kanna efri hluta andrúmsloftsins sem umlykur jörðina.

Sérfræðingar hafa reiknað út að hnötturinn muni falla til jarðar einhverntíma frá lokum september og fram í lok október. Erfitt er að reikna út hvar hann muni lenda og gæti hann fallið til jarðar allt frá Alaska til suðurodda Suður-Ameríku. Líkurnar á því að brak úr hnettinum lendi á fólki eru taldar einn á móti 3200 og stærstur hluti hnattarins mun að öllum líkindum brenna upp á leið sinni til jarðar en reiknað hefur verið út að rúm fimm hundruð kíló af braki gætu náð til jarðar.

Hnötturinn er tæp sex tonn á þyngd og hætti hann að virka árið 2005. Hnötturinn er mun minni en geimstöðin MIR sem féll til jarðar árið 2001 og Skylab sem féll til jarðar árið 1979. Í báðum tilvikum lenti brakið á mannlausum svæðum jarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×